Í nútíma heimi, þar sem samfélagsmiðlar er orðnir rótgrónir í lífi flestra, er erfitt að finna einhvern sem notar ekki að minnsta kosti einn slíkan miðil til að viðhalda tengslum við aðra, deila sinni reynslu eða einfaldlega til að fletta í gegnum færslur annarra. Samfélagsmiðlar eru á marga vegu orðnir órjúfanlegur hluti af hinu daglega lífi.

En hvað gerist þegar ákveðið er að draga sig í hlé um stundarsakir frá stöðugu áreiti þeirra og glóandi skjásins? Eyjamaðurinn og lífskúnstnerinn Tryggvi Hjaltason settist niður með blaðamanni til að ræða sex vikna samfélagsmiðlafrí hans og nýjar símareglur Grunnskóla Vestmannaeyja en skólinn bannaði nýverið snjalltæki í einkaeigu.

Á Facebook á fundi

Tryggvi fór að fylgjast ítarlega með símanotkun sinni árið 2016 eftir að hafa tekið eftir því að hann var byrjaður að teygja sig ósjálfrátt í símann og opna Facebook á miðjum fundi í vinnunni. „Mér brá svo mikið við þetta og fór að fylgjast með þessu og þá tók ég eftir því að alltaf þegar það kom einhver dauður tími þá greip ég sjálfkrafa í símann og opnaði Facebook, þó ég hafði í rauninni ekkert þangað að sækja. Líka mjög lítið sem ég fékk út úr þeim athöfnum,” segir Tryggvi sem eftir það hefur verið duglegur að aftengjast samfélagsmiðlum í nokkrar vikur í senn þegar hann finnur fyrir þörfinni. 

„Þetta er bara smá eins og að fasta þar sem maður verður næmari fyrir öllu. Ég var líka á leiðinni í frí með fjölskyldunni í sumar og mig langaði að vera þar og með börnunum í ótruflaðri stund, þannig að ég ákvað að gera þetta samhliða því.” 

Hvað kom í staðinn fyrir tímann sem þú græddir? „Sá tími fór aðallega í fleiri gæðastundir með fjölskyldunni og kannski meiri bókalestur, sérstaklega á kvöldin eftir að börnin voru farin að sofa, sem eru náttúrulega bara „beautiful” skipti og maður kvartar ekki yfir því.”

Aukin einbeiting og minni þreyta

Helstu ávinningarnir sem Tryggvi tók eftir með því að draga sig í hlé frá samfélagsmiðlum nú síðast í sumar voru að brotakennd hugsun og sú venja að grípa í símann að ástæðulausu snarminnkaði, einbeiting jókst, og nær öll ákvörðunarþreyta hvarf um leið. „Þegar þú opnar samfélagsmiðil og skoðar hann þá ertu að taka mörghundruð ákvarðanir á kannski tuttugu mínútna skrolli á Facebook. Þú ert endalaust að hugsa hvort þú eigir að opna eitthvað, læka, skrolla meira niður, ýta á tilkynninguna, senda til baka, svara eða pósta. Þú ert stanslaust að taka ákvarðanir sem þreyta heilann og þú tekur kannski ekki eftir því fyrr en seinni partinn þegar ákvörðun eins og hvað eigi að vera í matinn er orðin alveg yfirþyrmandi. Ég held að þetta sé mjög lúmskur áhrifavaldur og stór breyta í af hverju það er algjör sprenging af fólki, líka ungu fólki, sem er að upplifa kulnun. Ef þú ert í tvo eða þrjá tíma á dag á Facebook og ert að taka kannski þrjú þúsund ákvarðanir þá eðlilega áttu lítið gas eftir til að sinna vinnunni þinni, börnunum eða náminu vel.”

Það er ekki allt neikvætt við samfélagsmiðla segir Tryggvi enda hægt að nota þá til gagns og gaman eins og til þess að læra, senda fólki falleg skilaboð, bjóða í veislu, halda utan um ýmis félagsstörf, og til að setja sig eða málstaðinn á radarinn. „Þetta getur verið alveg þvílíkt valdeflandi verkfæri og í rauninni ert þú þinn eiginn fjölmiðill þegar þú ert með aðgang að samfélagsmiðlum. Ef þú ert með eitthvað sem þú telur þig hafa fram að færa og vilt að heimurinn heyri í þér þá getur þú bara starfað eins og fjölmiðill. Ímyndaðu þér ef þú hefðir engan aðgang að fjölmiðli og ætlaðir að koma fram einhverri hugmynd fyrir þrjátíu árum, þá komstu röddinni þinni ekkert á framfæri.”

Mælir þú með því að taka sér frí frá samfélagsmiðlum? „Ég veit ekki hvort að allir þurfi þess og það er náttúrulega fullt af fólki sem notar þetta bara mjög hóflega og þarf örugglega ekkert á þessu að halda, en ég hugsa líka að það sé alveg fullt af fólki og örugglega góður partur sem ef það les einhverja svona grein mun spyrja sjálfan sig hvort þau þyrftu kannski að gera þetta. Ég held að ef þú spyrð sjálfan þig hvort þú þurfir þess þá þarftu örugglega að prófa þetta og þá mæli ég alveg með því. Það þarf ekkert endilega að vera í sex vikur, það getur verið í eina eða tvær, en prófaðu allavega að gera þetta og finndu muninn því þú veist ekki fyrr en þú tekur þetta út hvað þetta er að kosta þig.”

Símabann hárrétt ákvörðun

Undanfarna mánuði hefur Tryggvi stýrt stýrihópi um stöðu drengja í menntakerfinu, ásamt því að hafa varið síðustu sex árunum í að kynna sér þær áskoranir sem íslensk börn standa frammi fyrir. Þá hefur Tryggvi einnig verið með erindi fyrir foreldra og forráðamenn nemenda í Grunnskóla Vestmannaeyja um eðlileg viðmið í notkun snjallsíma og tölvuleikja.

„Þetta er frábær ákvörðun og mér finnst hún hárrétt,” segir Tryggvi um ákvörðun skólastjórnenda GRV að banna snjalltæki í einkaeigu á skólatíma. „Ég er mikill áhugamaður um einmitt svona samfélagssveiflur eða krafta sem virðast hafa mjög afgerandi áhrif á velferð okkar og í þessu tilfelli velferð barna. Þú hittir ekki kennara eða foreldra sem tala ekki um þessa símaáskorun og mér finnst mikilvægt að við tölum um hana, ekki bara út frá tilfinningum heldur líka út frá gagnadrifinni umræðu sem er uppbyggileg og leitast þá við hvernig við getum saman reynt að ná einhverjum árangri og gert betur.”

Vaxandi magn rannsókna sýna stóraukinn kvíða, vanlíðan og svefnvandamál hjá unglingum, sérstaklega unglingsstúlkum, eftir að snjallsíminn fór að koma í almenna notkun hjá börnum upp úr 2013. Eftir að hafa tekið yfir sjötíu viðtöl við einstaklinga í menntakerfinu fyrir menntamálaráðuneytið segir Tryggvi fáar undantekningar á því að börn í dag standi frammi fyrir talsverðum áskorunum nú þegar nær allir hafa aðgang að samfélagsmiðlum. „Aukið einelti, þau eru mikið að kúpla sig út úr félagslegum aðstæðum og mynda færri tengingar og vináttur, einmanaleiki eykst og kvíði yfir því hvernig samfélagsmiðlar eru notaðir í skólanum. Þau þora ekki að gera ákveðna hluti því þau eru hrædd um að það verða tekin myndbönd af þeim og þeim deilt áfram. Síðan eru símarnir stanslaust að pípa í kennslustundum og það truflar einbeitingu og hefur áhrif á námsárangur.”

„Ég hef ekki heyrt nein rök sem vega upp á móti þessum mikla kostnaði. Jú, jú, símar geta alveg verið verkfæri sem geta hjálpað í námi en ef það er eitthvað nauðsynlegt í símanum sem getur hjálpað við það þá held ég bara að það sé kvöð skólans eða að krafan liggi hjá skólanum að færa börnunum þá tækni í formi spjaldtölva. Það er náttúrulega líka aðstöðumunur bara varðandi fjárhag foreldra og annað ef að krafan er allt í einu sú að öll börn verða að eiga snjallsíma bara til að geta tekið þátt í íslensku námi. Það er ekki sanngjörn krafa þannig að ég sé engin rök sem eiga að geta vegið upp á móti þessu öllu og þess vegna finnst mér þetta bara rosalega góð ákvörðun og ég er mjög stoltur af mínu bæjarfélagi og grunnskólanum að hafa gert þetta.”

Bjartsýnn á framtíðina

Rétt eins og unglingadrykkja, sem nú hefur hríðfallið hér á landi, hélt vöku fyrir foreldrum áður fyrr þá vill Tryggvi meina að samfélagsmiðlar eru orðnir að einni helstu áskorun nýrra kynslóð foreldra. „Þarna var vandamálið að fá unglingana heim á kvöldin, en í dag er bara allt önnur áskörun þar sem börn og unglingar eru föst í heimi samfélagsmiðla. Þau eru að einangrast, eru einmana, kvíðin og döpur og vilja jafnvel ekki fara út úr húsi. Ég veit ekki hvort þetta sé erfiðara eða auðveldara eða flóknara eða léttara, en okkur sem samfélag tókst til dæmis að taka unglingadrykkju og fara úr því að vera eitt versta tíðni í heiminum í með lægri tíðnum í Evrópu með samstundu átaki, forvörnum og fræðslu. Ég held að við getum gert það nákvæmlega sama með símann og ég er að vona að við séum soldið á toppnum núna í skaðanum sem þetta er að valda og með því að fólk skilur betur hvað er hægt að gera þá eftir kannski fimm ár eigum við að geta sagt bara úff, þetta var nú vondur tími, en við erum á betri stað í dag.”