Pakkajól í Eyjum er samvinnuverkefni foreldramorgna Landakirkju og Bókasafns Vestmannaeyja. Um er að ræða gjafasöfnun handa efnaminni börnum á aldrinum 0-18 ára. Er þetta tilvalið tækifæri til að láta gott af sér leiða í aðdraganda jóla því sannleikurinn er sá að jafnvel smáræði getur verið heilmikið fyrir aðra.

Þeir sem hafa áhuga á að láta gjöf af hendi í söfnunina skulu fara með þær niður á bókasafn en þar verður gjöfunum komið fyrir undir jólatrénu í Einarsstofu. Gjafirnar skulu merktar aldri og kyni/kynlaust. Söfnunin stendur 27. nóv. – 16. des. og munu prestar Landakirkju útdeila gjöfunum í vikunni fyrir jól.

Við hvetjum alla til að taka þátt í þessu spennandi verkefni.