„Upphafið má rekja til ársins 2010 þegar ég var að vinna með og fyrir Palla Eyjólfs. Þá kom upp hjá okkur hugmynd um að gera eitthvað til að heiðra minningu Oddgeirs á Þjóðhátíðinni 2011.  Við vorum flutt til Eyja og ég hættur hjá Palla. Haustið 2011 átti að opna Hörpuna og ég spyr Guðrúnu hvort við ættum ekki að skella í Oddgeirstónleika í þessari nýju tónlistarhöll,“ segir Bjarni Ólafur Guðmundsson um upphafið að Eyjatónleikunum í Hörpu sem hann og Guðrún Mary Ólafsdóttir, eiginkona hans hafa haldið í Hörpunni. Eru þeir orðnir tólf og verða þeir þrettándu haldnir laugardaginn 27. janúar nk. 

Guðrún Mary og Bjarni Ólafur.

„Ég sagði bara já og amen og treysti honum algjörlega,“ segir Guðrún. „Það varð úr að við ákváðum að slá til. Daddi hringdi niður í Hörpu þótt það væri ekki einu sinni búið að opna hana og við tókum frá Eldborgarsalinn.“ 

Bjarni segir að þau hafi strax verið ákveðin í að helga tónleikana afmæli Oddgeirs Kristjánssonar sem hefði orðið 100 ára miðvikudaginn 16. nóvember 2011. „Þó tónleikarnir hafi ekki verið um helgi tókust þeir frábærlega vel og aðsókn góð,“ segir Bjarni. Tónleikarnir báru heitið, Bjartar vonir vakna með tilvísun í eitt af þekktari lögum Oddgeirs, Vor við sæinn. Mikill metnaður var lagður í tónleika og einvalalið tónlistarfólks kom fram. Þorvaldur Bjarni stjórnaði stórsveit og margir af bestu söngvurum landsins létu ljós sitt skína. Þarna var lagður grunnurinn og þann 27. janúar verða þrettándu tónleikarnir í Hörpu.  Þetta var unnið í miklu og góðu samráði við fjölskyldu Oddgeirs, sem treystu okkur fyrir þessu og við kunnum þeim alúðarþakkir fyrir. 

Tengt gosinu

 „Við fengum mikla hvatningu um að gera þetta aftur. Ég ræddi m.a. við Elliða, þáverandi bæjarstjóra og hann sagði; – Daddi, í ykkar sporum myndi ég vera með tónleikana í janúar og tengja það meira við gosið 1973. Okkur fannst þetta mjög skynsamlegt og héldum næstu tónleika í janúar 2013. Þeir hafa síðan verið helgi sem næst upphafi eldgossins 23. janúar.“ 

Undantekningin var 2014 þegar tónleikarnir voru helgaðir minningu Ása í Bæ sem hefði orðið 100 ára þann 27. febrúar þetta ár og síðan Covid árin 2020 og 2021, þegar þurfti að færa tónleikana fram á vorið vegna samkomutakmarkanna.  Sennilega eru þetta langlífasti viðburðurinn í Hörpu fyrir utan hefðbunda sinfoníutónleika.  

 Mikið er lagt undir og ábyrgðin er þeirra og stendur og fellur með aðsókn. „Nei. Ég finn ekki svo mikið fyrir stressi, alls ekki. Fannst þetta frábær hugmynd frá byrjun og ef það er einhver sem kann þetta, þá er það hann Daddi minn. Við stöndum saman í þessu en hann sér mestmegnis um alla skipulagningu. Mér líður best að vera á bak við,“ segir Guðrún og Bjarni grípur boltann. 

„Guðrún er akkerisfestin, jarðtenging en við ræðum þetta mikið. Veltum upp hlutum eins og flytjendum og lögum. Það gerist ekkert nema að stjórnarformaðurinn samþykki. Auðvitað er maður stressaður þegar miðasala fer hægt af stað. Það er ekki auðvelt fyrir einstaklinga eins og okkur að standa í þessu. Sem dæmi höfum við ekki hugmynd um hvort næstu tónleikar verða réttu megin við núllið, sem er óþægileg staða að vera í, en við erum bjartsýn og treystum á okkar fólk“ 

Oddgeir og Ási kjölfestan

Oddgeir og Ási eru og verða kjölfestan í þeim mikla bálki sem Eyjalögin eru. „Við höldum alltaf tryggð við Oddgeir og á hverjum tónleikum eru þrjú til fjögur lög og stundum fleiri eftir hann. Sama má segja um Ása og fleiri, þeir hafa fengið sinn sess. Við höfum líka skotið upp á skjá, því sem við köllum póskort þar sem fjallað er um menn og viðburði í Eyjum. Blandað þessu saman en í dag eru tónleikarnir meira tengdir þjóðhátíðinni. Gleymum því ekki að Oddgeir er upphafsmaður þjóðhátíðarlaganna sem eru besta auglýsing sem þjóðhátíðin fær. Gefa okkur ótrúlegt forskot á aðrar útihátíðir og hátíðin er 150 ára í ár, sem hlýtur að kalla á einhvern fókus á það.“ 

 Það er staðreynd að þið hafið fengið til liðs við ykkur okkar besta tónlistarfólk. Hvernig er að sannfæra það um að taka þátt í þessu með ykkur? 

 „Ég verð að nefna Eyjamanninn, Eið vin okkar Arnarsson bassaleikara sem  hefur reynst okkur gríðarlega vel,“ segir Bjarni. „Eiður er eins og Guðrún, mjög jarðbundinn, hreinn og beinn og segir nákvæmlega það sem honum finnst. Ótrúlega næmur á þessa hluti enda verið í þessum bransa mjög lengi. Gríðarlegur reynslubolti og hjálpaði mikið í upphafi. Ekki síður að fá Þorvald Bjarna sem var með okkur á tveimur fyrstu tónleikunum. Þeir voru og eru saman í Todmobile og þekkjast því vel. Það hjálpaði líka að Oddgeir nýtur mikillar virðingar hjá tónlistarfólki.“ 

„Tónlistarfólkinu finnst svo gaman að syngja Eyjalögin. Maður finnur hvað þau meta það mikils að taka þátt í þessu með okkur. Eru þakklát í rauninni. Það eru forréttindi að fá að vinna að þessu verkefni,“ segir Guðrún. 

Sterk Eyjatengin

Vestmannaeyjar skartar ungu og kröftugu tónlistarfólki og hafa Bjarni og Guðrún verið óhrædd að gefa þeim tækifæri. „Frá fyrstu tónleikunum höfum við verið með sterka Eyjatengingu og fólkið okkar hefur haft mjög gaman að því að koma fram á tónleikunum. Það er líka mikils virði fyrir okkur sem stöndum í þessu,“ segir Bjarni. 

 Þegar litið er til baka má segja að hvergi hafi verið slegið af í vali á listafólki og tilfinning að alltaf sé reynt að gera betur. Þau eru sammála um það sé uppleggið. „Fólk talar um það, ekki síst fastakúnnarnir sem segja eftir hverja tónleika, þetta er það flottasta hingað til. Ekki sé hægt að toppa þetta, er það sem við fáum að heyra. Það er líka svo þakklátt sem er okkur svo mikils virði,“ segir Guðrún. 

 „Talandi um metnað þá höfum við aldrei verið með stærri hóp en á tónleikunum þann 27. Í allt eru flytjendur tíu og erum við í vandræðum með finna nógu mörg lög á hvern flytjenda. Auðvitað er það áhætta en við viljum standa okkur,“ segir Bjarni og giskar á að heildina séu Eyjatónleikagestir um 15.000 og lögin 130 til 150 samtals frá upphafi. Ég held að mjög fáir átti sig á hvað það eru mörg lög sem tengjast Eyjunum, það eitt og sér er gríðarlegur mennningararfur. 


Eygló Guðmundsdóttir tók á móti viðurkenningunni fyrir bróður sinn ásamt Þór Kristjánssyni.

Þátttaka Eyjafólks skiptir miklu

Bjarni segir þetta kosta mikla skipulagningu og vinnu sem hefst strax eftir hverja tónleika. Þórir Úlfarsson, sem stjórnað hefur hljómsveitinni í níu tónleika og Eiður koma að þeirri vinnu. Hann segir það líka hjálpa að litlar breytingar eru á hljómsveitinni. „Okkur þykir líka gaman að hafa fengið Lúðrasveitina okkar og kórana, Karla- og Kvennakór Vestmannaeyja til liðs við okkur. Núna er Kvennakórinn að koma fram hjá okkur í annað skiptið og Karlakórinn í fjórða skiptið ef ég man rétt. Ég finn líka hjá öðru listafólki að því finnst kórarnir styrkja tónleikana,“ segir Daddi. 

 Svo er það stóra spurningin, hvað eigið þið eftir standa lengi í þessu? Þau hlæja bæði. „Ég veit það ekki. Maður er svo ótrúlega þakklátur fyrir að fólk vilji koma aftur og aftur. Hvað þetta gengur vel. Við segjum stundum að best væri að hvíla á næsta ári, en á meðan að eftirspurn er til staðar getum við haldið áfram,“ segir Guðrún. 

„En þetta er ekki bara að koma saman og syngja þjóðhátíðarlögin í janúar. Við erum að hittast Eyjamenn sem er svo stór hópur, ekki bara í Vestmannaeyjum. Við eigum þennan samastað í Hörpunni í janúar, á tíma sem við tengjum svo sterkt við. Þetta er öðrum þræði, ættar-, fjölskyldu- og vinamót. Þetta eru einu tónleikarnir í Hörpunni sem fá 30 til 40 mínútna hlé sem segir sitt.“  En það er alveg þannig að svona stórt verkefni gengur aldrei án þess að eiga góða að.  Við viljum því nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim sem stutt hafa við okkur í allan þennan tíma.  Án ykkar væri þetta alls ekki hægt. 


Flytjendur ásamt gestum í Hörpu.

Sterkur hópur í ár

Hópurinn af listafólki sem kemur fram í ár er bæði fjölbreyttur og stór.  Í allt tíu manns og þar af þrír sem við tengjum sterkt við Eyjar. Bjartmar okkar Guðlaugsson, Tóti frá Hoffelli og Albert Tórshamar söngvari Moldu og Védís Hervör, dóttir Árna Sigfússonar.  Síðan er Ragga Gísla auðvitað tengdadóttir Eyjanna.  Til viðbótar við þennan glæsilega hóp eru það svo bræðurnir Jón Jóns og Frikki Dór, Salka Sól og svo höfundur og flytjandi Þjóðhátíðarlagsins 2023 Gauti Þeyr, eða Emmsjé Gauti.  Á þessari upptalningu sést að það verður öllu tjaldað til þann 27.janúar og því um að gera að styðja verkefnið með því að skella sér í Hörpuna.  Miðasalan fer fram á tix.is og í miðasölu Hörpu í sía 528-5050. 

Greinina má lesa í 01. tbl 2024.