Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdarstjóri Herjólfs

Herjólfur er enn í óðaönn að ferja gesti Þjóðhátíðar yfir á meginlandið en vel hefur gengið að koma fólki heim. „Vissulega er þetta ein stærsta og mesta álagshelgi sem við sinnum á hverju ári,” sagði Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdarstjóri Herjólfs í samtali við Eyjafréttir. „Nýja ferjan kom vel út en hún tekur meira af farartækjum en sú eldri sem hefur auðveldað flutninga. Það hefur gengið vel að koma gestum á Þjóðhátíð frá Eyjum en aukaferðin sem farin var í gær gerði mjög mikið og létti verulega á okkur. Enn er verið að færa farþega yfir og vonandi náum við að klára þetta fljótlega.”

Guðbjartur sagði hlutina hafa gengið ágætlega fyrir sig enda reynslumikið fólk í starfsliði Herjólfs. „Þjóðhátíð hefur farið fram lengur en elstu menn muna og því er ekkert sem kemur á óvart en það sem er e.t.v. sérstakt við farþegaflutninga þessa helgi er að við erum með nýja ferju og þurftum að aðlaga okkur aðeins og skipuleggja í samræmi við það. Það var því mikilvægt að fá hana í rekstur fyrir þessa Þjóðhátíð. Við búum svo vel að hafa mikið af reynslumiklu starfsfólki ásamt aðstoðarfólki sem þekkir þessi verk og því hefur þetta gengið ágætlega.  Það hjálpar jafnframt alltaf þegar veðrið leikur við okkur og ekki var annað að sjá en ferþegar voru rólegir og greinilegt að allir nutu sín vel,” sagði Guðbjartur og bætti við. „Það er alltaf ánægjulegt að sjá sama fólkið koma til Eyja með bros á vör og að sama skapi kveðja okkur eftir frábæra Þjóðhátíð með bros á vör.”

Ný vakt á Herjólf bíður þess að komast um borð.

Aðspurður um fjölda farþega sem fluttir hafa verið í kringum Þjóðhátíð sagðist Guðbjartur ekki geta svarað því alveg strax. „Við höfum ekki tekið saman farþegaflutninga yfir helgina og munum skoða það þegar það fer að róast hjá okkur.”