Áætlað er að Herjólfur fari í slipp í næstu viku og kemur þá Herjólfur III til með að leysa nýja Herjólf af á meðan. Um ábyrgðarskoðun á skipinu er að ræð sem getur tekið nokkrar vikur.

Ljóst er að ef Herjólfur III á að halda uppi áætlun í Landeyjahöfn þarf að vera nægt dýpi fyrir skipið. “Það er alveg í lagi með dýpi í augnablikinu. Það er minni sandur á ferðinni framan við hafnarmynnið en vanalega á þessum árstíma en við fylgjumst með ástandinu og erum undir það búin að sandur berist inn í hafnarmynnið,” sagði G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar í samtali við Eyjafréttir.

Glöggir farþegar Herjólfs hafa orðið varir við að grjót hefur hrunið úr varnargörðunum við höfnina. G. Pétur segir að náið sé fylgst með ástandi garðanna. “Það hafa orðið einhverjar skemmdir á grjótklæðningu en við teljum ekki að það hafi áhrif á stöðugleika garðanna.” G. Pétur segir engin merki um að farið sé að grafast undan görðum.