Eins og áður hefur komið fram ákvað bæjarráð á fundi sínum 3. júlí sl. að fela lögmönnum sínum, í samvinnu við HS veitur, að höfða mál á hendur Vinnslustöðinni, Huginn ehf og VÍS til greiðslu fullra bóta fyrir tjónið á neysluvatnslögn 3 sem tjónaðist alvarlega nú í vetur.
Afhendingartími á sambærilegri vatnslögn er ekki mögulegur fyrr en sumarið 2026. Aðrar gerðir lagna með skemmri framleiðslutíma hafa því verið til skoðunar, og verður áfram skoðað hvort möguleiki sé á að leggja slíka vatnslögn næsta sumar sem almannavarnarlögn.
Þar sem ekki er hægt að leggja nýja neysluvatnslögn í sumar þá er í forgangi að tryggja þá þriðju eins vel og hægt er fyrir veturinn. Það verkefni er á borðinu hjá HS veitum og er sú vinna í fullum gangi. Einnig er verið að skoða viðgerð á neysluvatnslögn 1 sem myndi styðja við vantsflutning til Vestmannaeyja.
Bæjarstjórn fundaði fyrr í vikunni og í sameiginlegri bókun styður hún niðurstöðu bæjarráðs að höfða dómsmál til að heimta fullar bætur fyrir það tjón sem útgerð Vinnslustöðvarinnar olli á vatnslögninni milli lands og Eyja. Fyrir liggur að tjónið nemur a.m.k. 1.500 milljónum króna en útgerðin og tryggingafélag hennar freista þess nú að takmarka bæturnar við um 360 milljónir króna, skv. heimildarákvæði í siglingalögum.
Fram kemur í fundargerð að þrátt fyrir umrætt heimildarákvæði er ekkert sem bannar Vinnslustöðinni að bæta að fullu það tjón sem fyrirtækið hefur valdið bæjarbúum. Það væri viðskiptaleg ákvörðun sem félaginu er fyllilega heimilt að taka. Tjónið er gríðarlegt og nemur a.m.k. 300 þúsund krónum á hvern bæjarbúa. Það er siðferðislega óásættanlegt að þessu tjóni verði eingöngu velt yfir á íbúa í Vestmannaeyjum með hækkun skatta og gjalda á meðan tjónvaldurinn sjálfur, Vinnslustöðin, sé eini málsaðilinn sem komi skaðlaus frá því tjóni sem hún olli.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst