Það var fjölmenni í Einarstofu í gær þegar útgáfu 100 ára afmælisblaðs Björgunarfélags Vestmannaeyja var fagnað.
Ómar Garðarsson, sem ritstýrði blaðinu hóf athöfnina á nokkrum orðum. Hann sagði það hafa verið eintakt tækifæri að fá að stýra afmælisblaðinu. „ Það er ótrúlegt til þess að hugsa að á árinu 1918 var Björgunarfélag Vestmannaeyja stofnað. Ár hörmunga, fyrri heimstyrjöldinni að ljúka með tilheyrandi þrengingum, frostaveturinn mikli geysaði, Spænska veikin herjaði og Katla gaus. Þetta var líka árið sem þjóðin fékk fullveldi og þrátt fyrir mótlætið var horft fram á veginn.
Eitt skýrasta dæmið um það er stofnun BV sem hafði það að markmiði að kaupa björgunar- og varðskip. Takmark sem náðist með mikilli elju og framsýni og draumurinn varð að veruleika þegar varðskipið Þór kom til Vestmannaeyja þann 26. mars 1920. Þar með var lagður grunnur að því öfluga gæslu- og björgunarstarfi á Íslandi sem við þekkjum í dag.
Það var mér mikill heiður þegar Arnór Arnórsson, formaður bað mig um að ritstýra afmælisblaði Félagsins sem nú er að koma út, rétt ári eftir að hann hafði samband. Þetta var mikið verk en ég naut aðstoðar Arnórs, Adólfs Þórssonar fyrrum formanns og reynsluboltanna Sigurðar Þ. Jónssonar, sem er því miður fjarri góðu gamni og Aðalsteins Baldurssonar sem lætur sig ekki vanta,” sagði Ómar. „Ég vil þakka þeim samstarfið og líka Óskar Pétri ljósmyndara sem nú er að berjast á öðrum vígstöðvum. Allt hefur gengið vel til þessa og hann bjartsýnn. Sæþór Vídó hannaði blaðið, braut það um og vann allar myndir. Hefur hann skilað góðu verki eins og við var á búast. Laugi Prentari, Guðlaugur Sigurðsson og peyjarinir hans í Stafrænu prentsmiðjunni prentuðu blaðið og sáu um frágang. Er ég þeim þakklátur fyrir vel unnið verk.“
Arnór Arnórsson, formaður BV, tók þá til máls og þakkaði Ómari og öllum sem komu nálægt útgáfunni vel unnin störf. „Sigurður Þórir skammaði mig í vikunni, ekki í fyrsta skiptið reyndar, hann nefnilega kom miklu meira að blaðinu en hann ætlaði sér. Takk Siggi fyrir þína vinnu,” sagði Arnór.
Þá afhenti hann Írisi Róbertsdóttur, bæjarstóra og Páleyju Borgþórsdóttur, lögreglustjóra fyrstu eintökin af blaðinu sem og Kára Bjarnasyni forstöðumanni Bókasafns Vestmannaeyja. Þá afhenti Arnór honum einnig fundargerðarbækur Björgunarfélagsins frá upphafi til varðveislu sem Kári tók við með miklum þökkum.
Blaðinu, sem er 120 bls og allt hið myndalegasta, var dreift í öll hús í Vestmannaeyjum í dag.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst