Það lá vel á þeim Alfreð Halldórssyni, vélstjóra á Ísleifi og Jóni Atla Gunnarssyni, skipstjóra þegar Eyjafréttir höfðu samband við þá í gærmorgun. Þeir voru í höfn í Vestmannaeyjum með fullfermi, um 1100 tonn af loðnu sem þeir fengu í fjórum köstum á Breiðafirði. Þeir biðu löndunar og gerðu ráð fyrir að aflinn færi í mjöl- og lýsisvinnslu. Það er byrjað að kreista hrogn úr loðnunni í Vinnslustöðinni. Jón Atli segir að þarna sé á ferðinni loðna sem gengur vestur fyrir land, svokölluð vestanganga sem virðist ætla að lengja loðnuvertíðina að þessu sinni.