Eigendur einungis 0,01 prósents hlutafjár samþykktu yfirtökutilboð Eyjamanna ehf. í Vinnslustöðina. Tilboðið, sem hljóðaði upp á 4,6 krónur á hlut, rann út á mánudaginn og hafði þá verið í gildi frá 13. maí.
Tilkynning er væntanleg í dag um niðurstöðu tilboðs Stillu ehf. í Vinnslustöðina. Stillumenn buðu á 8,3 krónur á hlut sem var 85 prósentum hærra en tilboð Eyjamanna. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins munu eigendur óverulegs hluta félagsins hafa samþykkt tilboðið. Reynist það rétt ráða Eyjamenn áfram um fimmtíu prósentum og Stilla 32 prósentum í Vinnslustöðinni.
Eyjamenn ehf. ætla að óska eftir því við stjórn Vinnslustöðvarinnar að félagið verði afskráð. „Það er ekki virk verðmyndun með félagið, hluthafar eru fáir og tilgangurinn með skráningu því lítill. Því fylgja jafnframt talsverður kostnaður og skyldur að vera skráð félag, sem hæfir ekki félagi með jafn þröngan hluthafahóp.” Þetta segir Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar og forsvarsmaður Eyjamanna ehf. Segir hann hlut Eyjamanna nægilega stóran til að hægt sé að krefjast þessa. Ekkert sé því til fyrirstöðu að þeir hluthafar sem ekki vilji selja eigi áfram bréf í óskráðu félagi.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst