Það var mikið fjör í Grafarvoginum þegar ÍBV mætti Fjölni í Pepsi-deild karla í dag.

Leikurinn fór rólega af stað en fljótlega tóku Fjölnis menn völdin. Það var svo Birnir Snær Ingason sem kom Fjölni yfir á 38. mínútu með skoti rétt fyrir utan vítateig Eyjamanna. Eyjamenn voru óheppnir að ná ekki að jafna tveimur mínútum seinna þegar Kaj Leo fór illa með varnarmenn Fjölnis og lagði boltann fyrir Atla Arnarsson en skot hans var varið á línu.

Í síðari hálfleik var allt í járnum og leikurinn opinn á báða bóga. Á 70. mínútu fengu Fjölnismenn dæmda á sig víti sem Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði úr. Dómurinn var þó umdeildur þar sem einhverjir vildu meina að brotið hefði átt sér stað utan vítateigs.

Þrátt fyrir nokkarar góðar tilraunir hjá báðum liðum náði hvorugt að skora aftur. 1-1 jafntefli var því niðurstaðan. Liðin eru því jöfn að stigum áfram í níunda og tíunda sæti þar sem ÍBV stendur betur á markatölu.