Fyrstu pysjurnar í kringum Þjóðhátíð?

Á síðasta ári voru viktaðar tæplega 6000 lundapysjur í Pysjueftirlitinu.
Erpur Snær Hansen

Svo virðist sem lundavarp sé með eindæmum gott þetta árið og óvenju snemma á ferðinni ef marka má rannsóknir Erps Snæs Hansens forstöðumanns Náttúrustofu Suðurlands.
„Lundinn í Eyjum var að verpa uppúr 10. maí í ár sem er töluvert fyrr en undanfarin ár, í byrjun júní, og meira að segja þó nokkuð í fyrra fallinu miðað við venjulegt árferði sem hefur verið í lok maí,” sagði Erpur í samtali við Eyjafréttir í gær. „Þessa dagana er lundinn svo á fullu að bera að okkur sýnist 5-7 cm sandsílalirfur í holur sínar, það á eftir að staðfesta tegundagreininguna. Þegar er þó ljóst að pysjurnar eru komnar í gegnum fyrstu 10 dagana áfallalaust, en í fyrra drápust 50% þeirra á fyrstu vikunni. Ef sílið er búið að ná sér á strik aftur á Selvogsbanka líkt og í Faxaflóa, þá eru það mjög jákvæðar fréttir því lítið hefur sést að síli í fæðu sunnan og vestanlands síðan 2002.”

Erpur telur að miðað við áframhald á þessum burði megi búast við mikið af lundapysju í bænum og að hún verði töluvert fyrr á ferðinni en síðustu ár. „Það má reikna með að fyrstu pysjurnar lendi í bænum um og uppúr Þjóðhátíð. Það má reikna með þetta verði met ár hjá pysjueftirlitinu, áfallalaust þá giska ég á yfir 10.000 pysjur,” sagði Erpur.

Mest lesið