Grímur Gíslason

Þá er rétt að halda áfram þar sem frá var horfið síðar hluta júlí í upprifjun á sögulegum staðreyndum er varðar Herjólf ohf og aðkomu bæjarstjórnar að þeim málum. Það er enn af nógu að taka.

Var kjörinn formaður stjórnar en síðan látinn víkja
Að afloknum bæjarstjórnarkosningum, þar sem að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði meirihlutanum og nýr meirihluti H- og E-lista var myndaður, var strax mikill þrýstingur frá nýjum meirihluta á að halda hluthafafund hjá Herjólfi ohf til að gera breytingar á stjórn.

Þegar kom að hluthafafundi lá ljóst fyrir að minnihlutinn, Sjálfstæðisflokkur, mundi tilnefna 2 fulltrúa í stað 3ja sem þeir höfðu gert áður. Það lá því fyrir að einn af þeim þremur sem að þau höfðu tilnefnt þyrfti að víkja og það var þeirra niðurstaða að tilnefna mig ekki. Ég neita því ekki að mér þótti það reyndar aðeins skrýtið, þar sem að þau höfðu nokkru áður valið mig til að leiða stjórnina, en það var þeirra ákvörðun og þau höfðu þó dug í sér til að hringja í mig og gera mér grein fyrir að þetta væri þeirra niðurstaða og á hverju hún byggði, að mig minnir, 2 eða 3 dögum fyrir hluthafafundinn. Amk var það áður en að ég frétti af því í kaffistofuspjallinu.

Hvað varðar orð talsmanns H-lista um einhverskonar „plott“ í þessu sambandi þá var ég a.m.k ekki þátttakandi í því, ef eitthvað slíkt var í gangi, og get alveg fullvissað talsmanninn og félaga hans um að ég hefði ekki tekið þátt í slíku sukki. Mér hefði alls ekki líkað sú aðgerð, enda ekki í anda þess verklags sem að við höfðum á okkar vinnu. Ég hefði, í hreinlyndi sagt, ekki tekið þátt í slíku.

Tilnefndur af H-lista vegna þekkingar og reynslu
Í kjölfarið á ákvörðun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks hafði nýr bæjarstjóri, Íris Róbertsdóttir, samband við mig og boðaði mig til fundar þar sem hún fór þess á leit við mig að taka sæti í stjórn Herjófs ohf., tilnefndur af H-lista, þar sem þau teldu mjög mikilvægt að missa ekki þekkingu mína og reynslu úr stjórninni.

Ég tók því vel en gerði bæjarstjóra grein fyrir því að ég væri tilbúinn til þess á faglegum forsendum en ekki pólitískum, enda teldi ég þetta verkefni ekki snúast um flokkspólitík heldur hagsmuni Vestmannaeyja. Ég gerði bæjarstjóra jafnframt ljóst að ég myndi einungis stjórnast af hagsmunum verkefnisins og Vestmannaeyja en ekki pólitískum hagsmunum. Ég myndi fylgja minni sannfæringu í þeim efnum og urðum við ásátt um það, enda hélt ég að Íris Róbertsdóttir þekkti mig það vel að hún vissi að ég reyni alltaf að fylgja sannfæringu minni.

Frá þeim tíma, eins og fram að þeim tíma, vann ég af heilindum. Bara með hagsmuni verkefnisins og Vestmannaeyinga í huga, enda aldrei nein pólitík i stjórninni. Bara hagsmunir verkefnisins, Herjólfs ohf., og bættar samgöngur milli lands og Eyja.

Ég var nokkuð kátur eftir samskipti mín við bæjarstjóra, í aðdraganda hluthafafundar, því að ég virkilega trúði að H-listi hefði breytt um kúrs og ætlaði að standa bak við verkefnið af heilum hug. Með hagsmuni Eyjamana að markmiði. Þegar tíminn leið varð ég hins vegar fyrir vonbrigðum því að í raun var bara ekki heill hugur á bak við þetta.

Vantrú og tortryggni í öndvegi svo ekki sé minnst á pólitíska potið varðandi mannaráðningar og áhyggjur af flestu öðru en því sem skipti máli. Beina línan frá bæjaryfirvöldum við miðilinn eyjar.net um allt sem snéri að Herjólfi ohf er síðan kafli út af fyrir sig, sem kannski væri vert að skoða nánar síðar.

Að sitja í umboði hrakyrta fólksins?
Eftirfarandi orð írisar Róbertsdóttur, bæjarstjóra, sem að hún lét falla í viðtali á eyjar.net í kjölfarið á skrifum mínum um framkomu meirihluta bæjarstjórnar gagnvart stjórn Herjólfs, vöktu óskipta athygli mína: „..skuli vera svona reiður að fá ekki að sitja lengur í stjórn Herjólfs í umboði þess fólks sem hann hrakyrðir með þessum hætti.“

Að tala um að ég hafi „hrakyrt“ fólk í grein minni þótti mér all sérstakt, enda ekki algengt orð í nútímamáli, en skv. nútímamálsorðabók stofnunar Árna Magnússonar þýðir sögnin að hrakyrða; að hafa ljót orð um einhvern. Ég get ekki með nokkru móti fundið að ég hafi notað ljót orð um nokkurn mann í grein minni, en ég sagði frá staðreyndum. Sagði sannleikann og stundum hittir hann fólk illa og verður svífyrðilegur, og þá líklega hrakyrði, skætingur eða dylgjur, í huga þeirra sem að hann hittir fyrir. Máltækið að sannleikanum verði hver sárreiðastur stendur yfirleitt fyrir sínu.

Við vígslu móttöku nýs Herjólfs.

Leit á mig sem fulltrúa allra bæjarbúa,
hvar sem þeir eru staddir á pólitíska litrófinu
Hins vegar þá kannski varpar þessi stutta setning, bæjarstjórans, góðu ljósi á það hvernig við horfum á þetta verkefni með mismunandi augum. Ég sóttist aldrei eftir að „fá“ að sitja í stjórn Herjólfs ohf, var bara beðinn um það og sinnti því af bestu samvisku og getu. Ég leit heldur aldrei þannig á að ég sæti í stjórn Herjólfs í umboði einhvers ákveðins hóps fólks, hvorki þegar að ég var tilnefndur af Sjálfstæðisflokknum né H-lista. Ég leit á mig sem fulltrúa allra Vestmannaeyinga og til að gæta hagsmuna þeirra allra hvar sem þeir skipast á hið pólitíska litróf.

Bættar samgöngur, bætt þjónusta, aukin ferðatíðni, lækkun fargjalda, samstarf við ferðaþjónustuaðila, aðlögun að þörfum Vestmannaeyinga og fleira og fleira er hagur fyrir alla sem búa í Eyjum og sækja Eyjarnar heim. Þar skiptir, í mínum huga, flokkspólitík engu máli. Þess vegna leit ég á mig, og ég held allir sem í stjórn Herjólfs voru, sem fulltrúa allra Vestmannaeyinga og að þeir sætu þar í umboði þeirra allra óháð stjórnmálaskoðunum.

Bæjarstjórinn horfir greinilega á þetta með öðrum gleraugum en ég, nefnilega með pólitísku gleraugunum. Það er nokkuð áhugavert sjónarmið sem endurspeglast í orðum hennar og fær mann til að hugsa hvort að hún lítur þá á sig sem einungis bæjarstjóra þeirra sem að hana kusu en ekki hinna. Það skyldi þó ekki vera?

Dró mig í hlé frá öllu pólitísku starfi til að trufla ekki verkefnið
Það var alveg ljóst þegar að ég tók sæti í stjórninni, að beiðni bæjarstjóra, tilnefndur af H-lista, að ég var ekki þeirra stuðningsmaður. Ég var og er flokksbundinn Sjálfstæðismaður og hef aldrei svikið lit þar. En fyrir mér hafði þetta verkefni ekkert með pólitík að gera. Samt ákvað ég það, um leið og ég var orðinn stjórnarmaður tilnefndur af H-lista sem myndar meirihluta í bæjarstjórn ásamt E-lista, að láta alla pólitík afskiptalausa á meðan að ég starfaði þarna.

Það þurfti talsvert til að ég drægi mig í hlé frá pólitískum afskiptum, en mér fannst verkefnið svo mikilvægt að ég var tilbúinn til þess. Frá þeim tíma er ég tók sæti i stjórn Herjólfs ohf, tilnefndur af H-lista, tók ég engan þátt í neinum störfum á vegum Sjálfstæðisflokksins, kom aldrei í Ásgarð, sótti enga fundi, tók engann þátt í pólitískri umræðu eða gerði neitt sem gæti verið hægt að nota til að tortryggja störf mín í stjórn Herjólfs, á pólitískan hátt.

Einu pólitísku fulltrúarnir sem að ég átti samskipti við eftir nefndan hluthafafund, og allan tímann sem að ég sat í stjórn Herjólfs ohf eftir það, voru núverandi bæjarstjóri og núverandi formaður bæjarráðs.

Ég, meðvitað, dró mig algjörlega í hlé frá pólitík til þess að ekki væri hægt að tortryggja störf mín í stjórninni vegna pólitíkur. Það gerði ég af virðingu við verkefnið og með mikla hagsmuni Eyjamanna að leiðarljósi. Það var það eina sem skipti máli í mínum huga.

Starfaði af fullum heilindum, en lét ekki fjarstýra mér
Ég tel mig hafa starfað af fullum heilindum í stjórn Herjófs sl ár og fylgt þeirri einu stefnu að hugsa um hagsmuni Vestmannaeyja. Ég verð að viðurkenna að ég var ekki tilbúinn að hugsa á nótum pólitískrar vinavæðingar við ráðningar og ég var heldur ekki tilbúinn að láta segja mér fyrir verkum eða láta fjarstýra mér við ákvarðanir stjórnar, enda var það ég sem bar ábyrgðina sem stjórnarmaður.

Stóðum okkur ekki í starfi segir talsmaður H-listans
Talsmaður H-listans, sem sendi mér pistil á eyjar.net fyrir skömmu, sagði að ég hafi ekki staðið undir væntingum flokkssystkina hans í störfum mínum stjórn Herjólfs og að ég hafi ekki notið trausts þeirra.

Þetta er talsvert á skjön við þakkarorðin sem látin voru falla um störf okkar Lúðvíks en líklega var lítil meining í þeim hjá forystumönnum meirihlutans, miðað við orð talsmanns H-listans sem sagði að við höfum ekki staðið okkur í starfi. Þar hlýtur að vera þá komin skýringin á því hvers vegna tók því ekki að tala við okkur áður en ný stjórn var kjörin! Það er amk. gott að hafa fengið skýringuna á því frá talsmanni H-listans, því ekki sá forystufólk meirihlutans ástæðu til að gera okkur grein fyrir því að við hefðum verið settir af vegna þess hve illa við stóðum okkur í störfum.

Nýr Herjólfur í Landeyjahöfn.

Hefði kannski átt að hafa meiri áhyggjur af langlegu nýs Herjólfs
En svona í framhjáhlaupi þá er kannski rétt að vekja athygli á að talsmaður H-lista taldi til vanefnda okkar í starfi hve langan tíma tók að fá kennitölu á fyrirtækið og birta fundargerðir stjórnar. Ég myndi nú hafa meiri áhyggjur af því, í sporum hans og félaga hans, að nýr Herjólfur lá ónotaður við bryggju í Eyjum í 6 vikur eftir komuna til landsins og er svo á leið í slipp fljólega eftir að hafa siglt í skamman tíma milli Eyja og Landeyja. Það er eitthvað bogið við þá stöðu og það varðar virkilega hagsmuni samfélagsins í Eyjum. Það hefði verið rík ástæða til þess fyrir talsmann H-lista að hafa miklar áhyggjur af því í stað þess að reyna að tína eitthvað til sem engu máli skipti varðandi undirbúning verkefnisins.

Ég vænti þess líka að einhverjir hefðu jafnvel verið búnir að öskra sig hása vegna þessarar undarlegu stöðu sem uppi var meðan að nýr Herjólfur lá bundinn við bryggju, ef að við Lúðvík hefðum enn verið við stjórnvöl Herjólfs ohf við þessar fáránlegu aðstæður.

Skyldi rof á trausti tengjast höfnun á vinavæðingunni?
Hvað rof á trausti varðar komu engar frekari skýringar frá talsmanninum svo að ég er enn alveg í loftinu með það en kannski kemur talsmaðurinn fram með einhverjar frekari skýringar á því síðar. Það rof skyldi þó ekki eitthvað tengjast flokkspólitískum ráðningarkröfum félaga hans?

Saltkjöt og baunir – Túkall
Ég hef alltaf tekið mínar sjálfstæðu ákvarðanir og get bara alls ekki orðið brúða búktalara. Ég kann ekki að vera Konni, þó að sumir aðrir geti kunnað vel við sig í því hlutverki og standi sig bara nokkuð vel í því, og kannski pirraði sú vankunnátta mín í þess konar brúðuleik einhverja. Hver veit?

En nóg um söguskýringar í bili en þær eru samt nauðsynlegar ef kafað verður eitthvað dýpra í einstaka hluti síðar. Ekki er ólíklegat að full þörf sé á að gera það.

Er svo ekki við hæfi að enda þetta að sinni með frasanum sem að Baldur og Konni enduðu yfirleitt framkomur sínar á í „denn“.

Saltkjöt og baunir – Túkall!

Grímur Gíslason