Öflugar samgöngur eru lífæð samfélagsins í Vestmannaeyjum. Þetta kom fram í skýrslu greiningardeildar Íslandsbanka árið 2019 þar sem mikilvægi siglinga til Landeyjahafnar eru tíundaðar. Frá því að höfnin opnaði fyrir um áratug hefur bærinn okkar tekið miklum breytingum, fjöldi ferðamanna aukist gríðarlega og mikil uppbygging átt sér stað í hvers kyns afþreyingu.

Bættar samgöngur koma ekki af sjálfu sér heldur hafa margir stórir sigrar unnist á undanförnum árum. Einn þeirra vannst þegar samið var um dýpkun Landeyjahafnar allan ársins hring. Dýpkunartímabilin gerðu það að verkum að hægt var að viðhalda dýpi hafnarinnar óháð árstíma og því var mjög brýnt að eyða þeim út.

Örar siglingar nýs Herjólfs milli lands og Eyja hafa nú aftur gerbreytt samfélaginu hér í Vestmannaeyjum, bæði fyrir íbúa og atvinnulíf. Ferðaþjónustan hefur tekið stakkaskiptum frá því sem hún var og mikil uppbygging átt sér stað á þessum tíma. Á degi hverjum spássera ferðamenn um götur bæjarins, njóta okkar fjölmörgu góðu veitingastaða og þeirrar afþreyingar sem í boði er hér í Eyjum. Þetta þarf að vera til frambúðar – við viljum ekki fara aftur í sama farið og sömu ferðatíðni og áður.

Síðast, en alls ekki síst, var það ákvörðun núverandi samgönguráðherra að jafna fargjöld hvort sem siglt væri til Þorlákshafnar eða Landeyjahafnar. Ég hef fullyrt, að sú ákvörðun var í raun ein stærsta kjarabót fyrir fjölskyldur í Vestmannaeyjum í langan tíma. Einföld ákvörðun sem skipti öllu máli fyrir íbúa í Eyjum.

Framundan eru stór verkefni er varða samgöngur við Vestmannaeyjar. Það á eftir að fullkanna hvort jarðgöng milli lands og Eyja séu möguleg. Það þarf að ákveða að hefja byggingu stórskipahafnar í Vestmannaeyjum. Það þarf að teygja á ferðamannatímanum þannig að hann hefjist fyrr á vorin og standi lengur fram á haustið. Og að lokum þurfum við að finna varanlega lausn á flugsamgöngum við Vestmannaeyjar, allan ársins hring.

Þetta eru stóru verkefnin framundan. Til þess að vinna stóra sigra þarf samgönguráðherra sem áttar sig á þörfum samfélagsins og hefur kjark til þess að taka stórar ákvarðanir.

Því er augljósa spurningin þessi: Er ekki bara best að kjósa Framsókn?

Njáll Ragnarsson