Álfsnes komið af stað eftir bilun

0
Álfsnes komið af stað eftir bilun
Ljósmynd: Vegagerðin

Dýpkun er hafin á ný í Landeyjahöfn eftir að bilun kom upp í lyftubúnaði dýpkunarskipsins Álfsness. Búast má við einhverri röskun á siglingum gamla Herjólfs næstu daga og líklegt er að ferjan muni sigla eftir sjávarföllum.

Við dýpkunina í Landeyjahöfn á miðvikudagskvöld bilaði spilið í Álfsnesi, sem sér um að lyfta dælurörinu. Skipinu var siglt til Vestmannaeyja í viðgerð en þar kom í ljós að það þyrfti meiri viðgerð heldur en vonir stóðu til. Því var ákveðið að sigla til Þorlákshafnar og reyna að ná skipinu í lag eins hratt og hægt er. Þetta kemur fram í frétt á vef Vegagerðarinnar.

Herjólfur IV fer í slipp
Gamli Herjólfur, Herjólfur III, leysir Herjólf IV af í siglingum milli lands og Eyja meðan nýja ferjan er í slipp í Hafnarfirði og verður þar næstu 3 vikurnar. Undanfarna viku hefur verið unnið að dýpkun Landeyjahafnar í þeim tilgangi að höfnin geti nýst eldra skipinu, en skipið þarf töluvert meira dýpi en nýi Herjólfur og því þarf að dýpka vel niður fyrir umhverfisdýpi umhverfis höfnina.

Í fréttinni segir en fremur að miðað við ölduspá ætti að vera hægt að dýpka höfnina áfram á föstudag og fram á laugardagskvöld. Ef allt gengur að óskum ætti þá að vera komið gott dýpi í höfninni fyrir Herjólf III.