Fyrri umræða fór fram um ársreikning Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2022 á fundi bæjarstjórnar í liðinni viku. Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri gerði grein fyrir ársreikningi Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2022 í framsögu. Jafnframt gerði hún grein fyrir helstu niðurstöðum reikningsins.

Fjárhagsstaða veikst mikið síðustu ár
Umræðan hófst á bókun frá bæjarfulltrúum D lista. Þar sem fram kemur að styrk fjárhagsstaða bæjarsjóðs Vestmannaeyja hefur veikst mikið síðustu árin. Undanfarin ár hefur verið gengið á sjóði sveitarfélagsins um tæp 50% og horfir fram á að þeir klárist að fullu með næstu stóru framkvæmdum og lántökur því yfirvofandi. Þó tekjur hafi verið góðar og verulega umfram áætlanir þá duga þær ekki þar sem A-hluta er skilað með 128 milljón króna tapi. Rekstur bæjarsjóðs stefnir í að verða ekki fjárhagslega sjálfbær sem er mikið áhyggjuefni. Nauðsynlegt er að meirihlutinn gæti meira aðhalds í rekstri en raun hefur verið hingað til.

Vel ásættanleg niðurstaða
Því var svo svarað með eftirfarandi bókun frá bæjarfulltrúum E og H lista. “Rekstrarniðurstaða Vestmannaeyjabæjar er vel ásættanleg. Niðurstaða samstæðu bæjarins (A- og B- hluta) er jákvæð um rúmar 26 m.kr. Tveir þættir skýra 127 m.kr. neikvæða afkomu A-hlutans, annars vegar gjaldfærsla vegna lífeyrisskuldbindinga og neikvæð ávöxtun verðbréfasafns bæjarins hins vegar.

Þó er ánægjulegt að fyrir afskriftir og fjármagnsliði var rekstrarafkoma A-hluta bæjarsjóðs jákvæð um 225 m.kr. sem sýnir að rekstur bæjarins sé sjálfbær í erfiðu rekstrarumhverfi sveitarfélaga.

Ánægjulegt er að fjárfestingar bæjarins hafa aukist á árinu og að þær hafi allar verið fjármagnaðar af eigið fé þannig að ekki hefur komið til lántöku.
Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að greiða niður skuldir bæjarsjóðs sem gerir að verkum að skuldastaða bæjarins er töluvert betri en flestra annarra sveitarfélaga.

Það sem hefur áhrif á samstæðureikning bæjarins eru stórir óvissuþættir svo sem breytingar á lífeyrisskuldbindingu, vaxtaumhverfi og kostnaðarsöm slipptaka Herjólfs, sem ekki var fyrirséð.

Ársreikningurinn endurspeglar vel fjárhagslegan styrk sveitarfélagsins sem er vel í stakk búið að standa undir framtíðaruppbyggingu.

Fjármálastjórnun bæjarins er fagleg, vel ígrunduð og framtíðarhorfur samfélagsins bjartar.”

Ósjálfbær rekstur
Í næstu bókun frá bæjarfulltrúum D lista kemur fram að undirrituð eru ekki sammála því að rekstur bæjarins sé sjálfbær eins og fram kemur í bókun meirihluta þar sem niðurstaða A-hluta sýnir að tekjur duga ekki fyrir gjöldum og fjárfestingum. Mjög kostnaðarsamar framkvæmdir eru framundan og vandséð hvernig núverandi sjóðir eiga að standa undir þeim.

Villandi bókun
Umræðum lauk svo með bókun frá bæjarfulltrúa E og H lista. “Bókun sjálfstæðisflokksins um ráðstöfun fjármagns úr verðbréfasjóðum bæjarins er villandi. Þegar verið er að innleysa fjármagn úr sjóðum bæjarins, er það gert til að kosta framkvæmdir eins og t.d. slökkvistöð. Vissulega er búið að innleysa fjármagn úr sjóðum en þeir hafa aldrei farið í rekstur heldur verið færðir í fjárfestingar líkt og glögglega kemur fram í ársreikningnum.”

 

Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar, bar upp niðurstöðutölur úr ársreikningi Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans fyrir árið 2022:

a) Ársreikningur sjóða í A-hluta 2022:

Afkoma fyrir fjármagnsliði ((jákvæ) kr. 12.390.000
Rekstrarafkoma ársins (neikvæð) kr. 127.927.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 13.512.930.000
Eigið fé kr. 7.492.538.000

Samstæða Vestmannaeyjabæjar

Afkoma fyrir fjármagnsliði (jákvæð) kr. 204.100.000
Rekstrarafkoma ársins (jákvæð) kr. 26.250.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 16.211.085.000
Eigið fé kr. 10.121.318.000

b) Ársreikningur Hafnarsjóðs Vestmannaeyja 2022:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 155.842.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 170.268.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 2.408.732.000
Eigið fé kr. 2.193.695.000

c) Ársreikningur Félagslegra íbúða 2022:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 20.080.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 0
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 910.938.000
Eigið fé (neikvætt) kr. -50.568.000

d) Ársreikningur Fráveitu Vestmannaeyja 2022:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 71.971.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 41.787.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 711.025.000
Eigið fé kr. 411.042.000

e) Ársreikningur Vatnsveitu 2022:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 0
Rekstrarafkoma ársins kr. 0
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 336.000.000
Eigið fé kr. 0

f) Ársreikningur Vestmannaeyjaferjunar Herjólfs ohf 2022:

Afkoma fyrir fjármagnsliði (neikvæð) kr. -57.008.000
Rekstrarafkoma ársins (neikvæð) kr. -55.731.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 332.774.000
Eigið fé kr. 200.820.000

g) Ársreikningur Náttúrustofu Suðurlands 2022:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 824.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 824.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 27.825.000
Eigið fé kr. 26.763.000

h) Ársreikningur Eyglóar eignarhaldsfélags ehf. 2022:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 0
Rekstrarafkoma ársins (neikvæð) kr. -2.971.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 327.309.000
Eigið fé (neikvæð) kr. -2.471.000

Samþykkt var með níu samhljóða atkvæðum að vísa ársreikningi Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans fyrir árið 2022 til síðari umræðu í bæjarstjórn og til endurskoðunar.