Á fundi bæjarstjórnar í dag fer fram síðari umræða um ársreikning Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2022. Stund milli stríða frá fyrri umræðu sem fór fram þann 23. mars s.l.
Að taka áskorun alvarlega
Það að umgangast fé og eigur bæjarbúa af varfærni er ekki bara verkefni heldur mikilvæg áskorun. Áskorun sem kjörnir fulltrúar, með umboði kjósenda, verða að taka alvarlega. Við hljótum að vilja umgangast rekstur sveitarfélags líkt og eigin pyngju, enda koma tekjur bæjarins úr okkar eigin vösum. Ársreikningurinn er í eðli sínu töluleg staðreynd á því hvernig gengið hefur að reka sveitarfélagið okkar. Þetta er okkar stærsta sameiginlega áskorun og það skiptir okkur öll máli að gæta aðhalds og vera hagsýn.
Ársreikningurinn sýnir að hallað hefur verulega undan fæti á liðnum árum og er staðan nú sú að A-hlutinn (aðalsjóður sveitarfélagsins, þ.e. hefðbundin starfsemi og lögbundin verkefni) stendur ekki lengur undir sér. Skattfé bæjarbúa og aðrar tekjur halda ekki lengur í við öll útgjöldin og kostnað við veitta þjónustu. Orsök lélegrar rekstrarafkomu liggur ekki í minnkandi tekjum heldur auknum útgjöldum og aðhaldsleysi.
Bæjarfulltrúar meirihlutans kenna þó m.a hækkun á lífeyrisskuldbindingu um slæma niðurstöðu reikningsins. Hækkunin er vissulega til staðar en hún er sambærileg síðustu árum. Ef breyting á skuldbindingunni er skoðuð sem hlutfall af tekjum s.l. 9 ár þá hefur hún verið að meðaltali um 9,7%, ef undanskilið er árið 2019. Það ár var lífeyrisskuldbindingin óvenju lág eða 6,8%, sem skýrir þá góða rekstrarniðurstöðu það ár.
Á myndinni hér að neðan má sjá versnandi afkomu í rekstrinum.

Myndin hér að neðan sýnir rekstrarniðurstöðu A-hluta sem hlutfall af veltu.

Að vilja sjá breytingar

Þrátt fyrir ýmis varúðarmerki hefur ekkert bólað á breyttum áherslum eða hugmyndum um hagræðingu og aðhald. Áframhaldandi stefnu- og áhyggjuleysi birtast okkur þess í stað með fjárhagslegum viðauka aukinna útgjalda uppá 64,5 milljón króna, umfram samþykkta fjárhagsáætlun.
Þrátt fyrir að sveitarfélagið sé eignarlega vel statt er það ekki sjálfbært að ganga í peningalega sjóði bæjarins til að sinna lögbundnum verkefnum. Slíkt mun ekki ganga til lengdar því á endanum tæmist sjóðurinn. Handbært fé og skammtímafjárfestingar hafa minnkað mikið s.l. þrjú ár eða um 48% og standa núna í 1,7 milljarði, samanborið við rúma 3,3 milljarðar árið 2019. Með því held ég því ekki fram að rétt sé að safna í sjóði en hafa þarf í sig og á þegar illa árar, þegar tekjunar raunverulega minnka en ekki aukast umtalsvert líkt verið hefur.
Í ljósi stöðunnar í þjóðfélaginu og heiminum öllum er brýnt að reksturinn hér sé sjálfbær og þurfum við að líta til útgjalda, þjónustu og framkvæmda. Við í Sjálfstæðisflokknum viljum sjá breytingar á hagsstjórn bæjarins og meðferð á eigum Eyjamanna. Við sjáum að betur má ef duga skal.
Rut Haraldsdóttir,
Varabæjarfulltrúi D-lista Sjálfstæðisflokks