Bæjarstjórn Vestmannaeyja hélt sérstakan hátíðarfund í Eldheimum á mánudag í tilefni þess að þá voru fimmtíu ár liðin frá lokum eldsumbrota á Heimaey í Vestmannaeyjum.

Eyþór Harðarson, bæjarfulltrúi, flutti ávarp í tilefni tímamótanna og gerði í framhaldi grein tillögu að verkefni sem snýr að því að að gera þeim hluta Vestmannaeyja sem fóru undir hraun árið 1973 betri skil með nútímalegu aðgengi og gagnvirkum hætti. Er með þessu leitast sérstaklega við að vekja athygli ungs fólks á þeirri sögu, minjum og menningu sem hurfu undir hraun.

Í tilefni af því að í dag eru liðin fimmtíu ár frá eldgosinu á Heimaey, er vert að huga að því hvort Vestmannaeyjabær sé að gera nægilega mikið til að miðla þekkingu og skilningi fólks á því sem hér gerðist milli kynslóða og upplýsingamiðlunar til unga fólksins. Vissulega eru í Vestmannaeyjum glæsileg söfn og metnaðarfullt skólastarf, sem leggja mikið af mörkum í þessu skyni, en hugsanlega skortir á því að þessi fræðsla sé öllum aðgengileg, alltaf þegar eftir henni er kallað og við höndina á þeim miðlum og tækjum sem unga fólkið notar helst.

Tillaga Eyþórs gerir ráð fyrir að bæjarstjórn láti kanna umfang og kostnað þess að kortleggja byggðina sem fór undir hraun; koma á gagnvirku stafrænu aðgengi að slíku korti þannig að með því t.d. að ýta á tiltekið húsnúmer við tiltekna götu komi upp mynd af húsinu, upplýsingar um fólkið sem í því bjó og þar fram eftir götunum. Þessi veflausn/smáforrit sem væri aðgengilegt á öllum samskiptatækjum gæti nýst öllum, bæði heimamönnum og ferðamönnum, til að gera sér grein fyrir því hvernig byggðin undir hrauninu leit út og söguna að baki henni. Með því verði t.a.m. sköpuð ný vídd í gönguferðum um nýja hraunið.

Ávarp Eyþórs Harðarsonar. bæjarfulltrúa.pdf