Það eru ekki bara meistaraflokkarnir sem leika til úrslita í bikarnum um helgina en ÍBV á fleirri fulltrúa í höllinni um helginan. Fjórði flokkur kvenna ÍBV mætir Stjörnunni í kvöld kl. 20:00 í bikarúrslitaleik í Laugardalshöll.

Stelpurnar tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum með góður sigri á Valsstúlkum 28-26 í Vestmannaeyjum í leik þar sem Agnes Lilja Styrmisdóttir skoraði 12 mörk. Þjálfarar liðsins eru þeir Hilmar Ágúst Björnsson og Gísli Steinar Jónsson.

Þá eru strákarnir á yngra ári í sjötta flokki karla einnig komnir í úrslit en liðið mætir HK á laugardaginn kl. 9:00. Þjálfarar liðsins eru Arnór Viðarsson og Petar Jokanovic.

Síminn í samstarfi við HSÍ mun sýna frá öllum úrslitaleikjum í bikarkeppni yngri flokka í Handboltapassanum í Sjónvarpi Símans dagana 8. – 10. mars. Sýnt verður frá leikjum 6.flokks og upp í 3.flokk í bæði kvenna- og karlaflokkum og þannig munu áhorfendur geta fylgst með framtíðarstjörnum Íslands leika fyrir framan fjölmenni í Laugardagshöll.

ÍBV og Valur mætast síðan í úrslitum Powerade-bikars karla í handbolta í Laugardalshöll á laugardaginn kl. 16:00.