Leika til bikarúrslita í dag

0
Leika til bikarúrslita í dag

Kvennalið ÍBV leikur til bikarúrslita í dag þegar liðið mætir Valskonum í Laugardalshöll klukkan 13:30. Það má gera ráð fyrir spennandi leik þar sem mætast tvö sterkustu kvenna lið landsins um þessar mundir. Þá hefur gengið á ýmsu milli þessara liða í aðdraganda leiksins svo ekki sé meira sagt. Sala í hópferðir á leikinn hefur gengið vel og þá hafa Eyjamenn á höfuðborgarsvæðinu í gegnum tíðina ekki látið sitt eftir liggja þegar mikið liggur við í stúkunni. Það má því búast við miklu stuði í Laugardalshöll í dag.

Kvennalið ÍBV varð síðast bikarmeistari í kvennaflokki árið 2004, þegar liðið lagði Hauka í úrslitaleik 32-35 fyrir framan rúmlega þúsund áhorfendur í Laugardalshöll. Alla Gorkorian var markahæst í Eyjaliðinu ásamt Sylviu Strass með níu mörk. En það var Elísa Sigurðardóttir, fyrirliði ÍBV, tók við bikarnum í leikslok. Liðið lék þá undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar. Þá varð liðið þrisvar sinnum bikarmeistari á fjórum árum 2001, 2002 og 2004. Liðið gekk í gegnum mikið gullaldar skeiða á fyrstu árum þessarar aldar og safnaði á þessum árum einnig að sér fjórum Íslandsmeistaratitlum.

Bikarmeistarar 2004